Wednesday, May 30, 2007

9 vikna

Arndís Áslaug er 9 vikna í dag. Hún fór af því tilefni til læknis í gær þar sem hún var skoðuð, vigtuð og mæld. Hún er búin að þyngjast um 2 kíló á 2 mánuðum og stækka um 5 cm. Það telst nokkuð gott, ég myndi amk ekki vilja sjá aðra fjölskyldumeðlimi þyngjast hlutfallslega jafnmikið á skömmum tíma. Dr. Madsen (Daninn var ekki síðri í gær, orðinn dökkur eftir sólina sl. daga) greindi litlu kellinguna okkar með bakflæði og svo er hún kviðslitin. Hún er núna komin á lyf og virðist líða betur, við förum svo á morgun á barnaspítalann þar sem hannað verður sérstakt unit í rúmið hennar svo hún liggi í réttri stöðu. Við kviðslitinu er ekkert gert og það á að ganga til baka innan árs.
Hrafnhildur Hekla er alsæl í sólinni og fílar í botn að vera hálfberrössuð á daginn. Á morgun er síðasti dagurinn hennar í leikskólanum og búið að fylla ísskápinn af keyptum cupcakes til að gefa krökkunum, en það á ekki að reyna baksturinn aftur.
Grímur er búinn að skila lokaritgerðinni og á eftir eitt próf á mánudaginn. Ég nýti tímann sem eftir er til að versla á netinu og skanna fjölbreytt vöruúrval í USA. Ég er sem betur fer á heimleið þar sem ég hef upp á síðkastið fundið fullmikið af góðum konfektbúðum. Afi Siggi kemur svo á sunnudaginn til að pakka og ferja liðið heim. Við leggjum af stað eftir tvær vikur, ótrúlegt að ferðin sem við 3ja manna fjölskyldan fórum af stað í til Davis sé á enda og við að koma heim frá Seattle með auka mann. Bandaríkjamaðurinn er kominn með bandarískt vegabréf og social security númer svo hún kemst með okkur heim og ég get kannski loksins farið að fá afsláttarkort í GAP út á númerið hennar.
Jæja, sjáumst á landinu góða eftir tvær vikur.

AB

Grímur er voða duglegur að taka myndir og setja á myndasíðuna.

B&B kombóið, bjór og barnavagn í bekkjarparýi hjá Grími

Boddí frænka og Hekla

Boddí frænka og Arndís Áslaug

Tuesday, May 01, 2007

Ný myndasíða

Það er komin ný myndasíða, www.hressi.fotki.com, þar sem þið getið fylgst með síðustu vikum familíinski í Seattle. Kallinn er nú kominn með áhuga á ljósmyndun og æfir sig grimmt. Hann vantaði alveg áhugamál til að sinna í öllum frítímanum sem við höfum. Lykilorðið inn á síðuna er nafnið á götunni þar sem fyrsta íbúðin okkar var (með litlum og engum íslenskum stöfum). Þeir sem ekki muna það eða vita en hafa brennandi áhuga á að skoða myndirnar geta sent okkur póst, anna.erlingsdottir@gmail.com eða grimur@landslog.is
Við erum annars bara hress, Arndís Áslaug dafnar vel og ríkur upp úr öllum þyngdar- og hæðarkúrvum þessa dagana. Hrafnhildur Hekla er afskaplega góð við systur sína, vaknar á morgnana og talar um hvað hún sé sæt og byrjar svo að púkast við foreldra sína. Við erum búin að vera ein í tvær vikur og það verður óneitanlega gott að koma heim og fá aðstoð frá ömmum og öfum aftur.

Hrafnhildur Hekla og amma Addý í nálinni.

Borghildur kom í sólahring til okkar frá Palo Alto. Það var voða gott að sjá hana og kíkja með henni í búðir en hún færði að sjálfsögðu öllum gjafir eftir að hafa skroppið í verslunarferð til Seattle.

Ég næ því miður ekki að seja inn fleiri myndir en vísa í nýju síðuna góðu.

AB

Thursday, April 05, 2007

Fyrsta vikan

Við þökkum kærlega fyrir allar kveðjur og gjafir sem við höfum fengið síðustu viku. Lífið hjá Arndísi Áslaugu er fremur einfalt, hún drekkur, sefur og kúkar. Hún er voða góð og stillt og hefur greinilega ekki erft það frá stóru systur að sofa ekki á daginn. Stóra er mjög ánægð með sitt hlutverk og var mjög montin að fara með myndir af systur sinni á leikskólann til að sýna krökkunum. Hún reynir að sjálfsögðu að ganga eins langt og hún mögulega getur með foreldra sína enda er dáldið flókið að þurfa að deila gamla liðinu.




Svarti fíni hárlubbinn.

Á leið í 6 daga skoðun hjá Dr. Madsen

Pabbinn með skvísurnar.

Hrafnhildur Hekla tók þessa því mamman þorði því ekki. Daninn er helvíti huggulegur, andlitið var að sjálfsögðu sett upp og gamla tróð sér í gömlu gallabuxurnar.

Amma Addý átti afmæli og afi eldaði nautalundir í tilefni dagsins. Fyrsti rauðvínssopinn í marga mánuði var afar ljúfur.

Friday, March 30, 2007

Arndís Áslaug Grímsdóttir

Miðvikudagskvöldið 28.mars kl 20:51 fæddist litla skottan okkar. Hún var 51 cm og 14 merkur og fæðingin gekk nokkuð vel fyrir sig. Við fórum upp á spítala kl 10 um morguninn til að kanna hvort eitthvað væri í gangi. Þá var ekki aftur snúið, vatnið farið og 4 í útvíkkun. Mamma og pabbi rétt náðu í hús, fengu fimm tíma svefn og svo hent í barnapössun. Litla kelling fór síðan frekar hægt í þetta allt saman og var að dóla sér að pína mömmuna fram yfir kvöldmat þegar mátti fara að koma henni út. Hún er náttúrulega alveg yndisleg, sefur, drekkur og kúkar en verður reið þegar eitthvað er ekki eins og það á að vera. Það virðist samt vera tiltölulega auðvelt að gera henni til hæfis, gefa henni brjóst. Hrafnhildur Hekla er mjög ánægð að vera stóra systir, vill stöðugt vera hjá henni en er ekki alveg með takmörkin á hreinu og búið að reyna á ýmislegt síðastliðinn sólarhring frá því við komum heim af spítalanum. Áður en við yfirgáfum sjúkrahúsið var bandaríski ríkisborgarinn nefndur Arndís Áslaug í höfuðið á uppáhalds ömmunum. Hér eru svo nokkrar myndir frá fyrsta sólarhringnum.

Ekki aftur snúið, mætt í sloppinn og til í átökin.

Andað í símann í gegnum eina netta hríð, Borghildur á línunni, stödd á Hawai með kampavínsglasið. Ólíkt hafast þær systur að.

Fyrsta myndin með ma&pa saman.

Alveg eins og Hrafnhildur Hekla þegar hún var skrúbbuð fyrst. Þær eru mjög líkar systurnar en Arndís Áslaug er með töluvert dekkra hár.







Komin heim til stóru systur, þær eru ekki alveg í sömu stemmningunni.

Monday, March 26, 2007

Enn bara þrjú

Það bólar ekkert á barni hér, við erum svo sem alveg róleg þar sem enn gætu verið rúmlega tvær vikur til stefnu til að allt gæti talist eðlilegt. Helsta undirbúningi er lokið, núna er bara verið að þurrka af gardínum í annað og þriðja skipti. Við förum til læknisins í fyrramálið og sjáum hvað hún segir. Það er mikil spenna að fá ömmu og afa til okkar en þau verða mætt í Radfordið þriðja árið í röð annaðkvöld. Hrafnhildur ætlar að taka sér frí í leikskólanum á miðvikudaginn til að vera með þeim en ég held að hún sé ekki með það á hreinu að hún megi ekki opna páskaeggið, sem mér skilst að sé um borð, þá.
Annars eru bara allir hressir, Grímur búinn í vorfríinu og byrjaður í skólanum, Hrafnhildur farin að krefjast þess að töluð sé enska við matarborðið og ég búin að finna mér shake sem kemst helvíti nálægt því að vera Hagamelur. Sem betur fer er ég amk 15-20 mín að keyra þangað, annars myndu ferðirnar vera fleiri en ein á dag. Það voru vonbrigði að keyra þangað í dag, lokað á mánudögum. Svo eru það myndir síðastliðins mánaðar.
Sleepover er nýtt sport hjá Hrafnhildi Heklu. Það tók hana smá tíma að vilja vera með Arndísi og Andreu í þeim pakka en nú virðist hún brött. Hún gisti reyndar hjá Andreu um helgina og vaknaði upp kl tvö af því hún gleymdi að segja bless við foreldra sína. Mér skilst að henni hafi tekist að vekja hin þrjú börnin og aðskilja foreldrana það sem eftir var nætur. Hún spurði mig í dag eftir að við höfðum beðið eftir Grími í 45 mín fyrir utan bókabúð hvort ég héldi að hann hefði kannski farið í sleepover hjá einhverjum?
Hrafnhildur að læra heima.

Barnið að taka mynd af foreldrum sínum fyrir utan nálina. Hefði svo sem getað verið hvar sem er.
Hrafnhildur Hekla og Bubbi á krakkasafninu.

Bubbarnir fara yfir stöðuna. Hvað er kallinn að mæla?
Hamingjusamar búðarkonur.



Erna er rosalega góð að mála kisur með lokuð augun.

Ferðinni á krakkasafnið lokað með einum starbucks.
Fyrir þá sem hafa áhuga á bumbum. Þessi er 38 vikna.

Í afmæli hjá skólasystur sinni sem var haldið í íþróttasal og var gríðarleg stemmning.

Fékk gamla aðeins til að skokka með sér.



Thursday, February 15, 2007

Viltu raka á honum hárið?

Grímur dró okkur mæðgur áðan út að borða í tilefni dagsins, og endaði ferðina inni í tóbaksbúð, sem er nú ekki frásögur færandi. Afgreiðslumaðurinn var af múslimsku bergi brotinn og virtist mjög hrifinn af Hrafnhildi. Gefum honum orðið:
"Who is this pretty girl?"
Grímur: "Hann er að segja hvað honum finnst þú falleg stelpa".
Afgreiðslumaður: "Can I keep her?"
Grímur: "Hann er að spyrja hvort hann megi eiga þig!"
Afgreiðslumaður: "Do you wan´t to stay with me here?"
Grímur: "Hann er að spyrja hvort þú viljir raka á honum hárið".

Annars þakka ég fyrir afmæliskveðjurnar sem ég hef fengið í dag, gjafir og símtöl. Mér þykir afar vænt um þetta allt saman, komin á þennan aldur, alein og vanfær lengst úti í heimi.

Anna

Wednesday, February 14, 2007

Bloggleysi

Ástæðan er 24. Við hjónin höfum nú loksins fundið okkur sameiginlegt áhugamál og dælum diskunum í spilarann. Hrafnhildur Hekla fer að sofa fyrir átta, svo er maraþon áhorf hjá okkur á kvöldin og látum okkur dreyma Bauer á nóttunni. Tölvan lenti einnig í smá óhappi svo vélin hefur ekki verið tæmd og lítið farið fyrir því að taka myndir. Það hefur ítrekað verið óskað eftir því að sjá bumbumyndir en þær eru frekar fáar, amk bumbumyndir þar sem barnið er í bumbunni. Ég læt þó eins og eina til tvær detta.

Mæðgurnar
Kjéllingin
Í dag er dagur elskanda hér í USA. Hrafnhildur Hekla fór með Valentínusarbók fyrir vinkonu sína í leikskólann og fékk aðra í staðinn. Hún fór líka með kort handa kennurunm sínum þar sem hún skrifaði sjálf undir eins og sjá má á myndinni. Þetta er augljóslega stórt H, lítið e, k, l og a.